21 Ágúst 2006 12:00

Allnokkur hópur ökumanna virðist ekki hirða um það að endurnýja ökuskírteinið. Slík mál koma til kasta lögreglunnar í Reykjavík nánast í hverri viku og síðast í gær voru höfð afskipti af tveimur ökumönnum sem féllu í þessa gryfju. Annar hafði auk þess ekki sinnt boðum um skoðun og því voru skrásetningarnúmer klippt af bílnum hans. Lögreglan var líka kölluð til vegna 16 ára ökumanns sem lenti í árekstri. Sá var að sjálfsögðu réttindalaus en því miður hefur borið á því að ungmenni keyra bíla án þess að hafa aldur til. Á árinu hafa nálægt fimmtíu slík tilfelli komið upp.

Um helgina var þrjátíu og einn ökumaður tekinn fyrir hraðakstur. Þá voru sjö teknir fyrir ölvunarakstur.

Meðfylgjandi mynd tengist ekki atburðum helgarinnar.