23 Janúar 2007 12:00

Sextán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Flest voru þau minniháttar en í einu tilviki var fólk flutt á slysadeild. Óhöppin í gær eru mun færri en undanfarna daga enda hafa akstursskilyrði batnað verulega.

Sem fyrr eru þó margir teknir fyrir hraðakstur en 21 ökumaður var stöðvaður fyrir þær sakir í gær. Þeir sem voru að flýta sér svona mikið voru teknir á ýmsum stöðum í umdæminu. M.a. voru allnokkrir stöðvaðir á tveimur stöðum á Reykjanesbrautinni þar sem framkvæmdir standa yfir. Á þessum stöðum er nú 50 km hámarkshraði en þar óku sumir um á liðlega 100. Verktakar hafa af þessu skiljanlega miklar áhyggjur enda setur þetta starfsmenn þeirra í stórhættu og vonandi taka ökumenn sig nú á í þessum efnum.

Tveir ökumenn, sem voru teknir fyrir hraðakstur í Norðurfelli í Breiðholti eftir hádegi í gær, óku líka á tvöföldum leyfilegum hámarkshraða. Við nánari eftirgrennslan reyndist annar þeirra jafnframt þegar vera sviptur ökuleyfi. Einn var tekinn fyrir ölvunarakstur í Reykjavík í gær. Sá er karlmaður á sextugsaldri en akstur hans var stöðvaður við áfengisverslun í borginni.