27 Ágúst 2007 12:00
Sautján ára piltur var tekinn fyrir hraðakstur á Vesturlandsvegi á laugardag og í kjölfarið sviptur ökuleyfi til bráðabirgða. Bíll piltsins mældist á 158 km hraða en á þessum hluta vegarins er 80 km hámarkshraði. Með honum í bílnum voru þrjú önnur ungmenni á líkum aldri og tók eitt þeirra við akstrinum. Það var heimilað að fengnu samþykki móður ökumannsins en hún er eigandi bílsins og var haft samband við hana símleiðis.
Hvort pilturinn fær bílinn aftur lánaðan hjá mömmu skal ósagt látið en fyrir honum liggur að reyna að standast ökupróf öðru sinni. Miðað við ökuferðina á laugardag er ljóst að pilturinn á mjög margt ólært um umferðina. Þess má geta að pilturinn fékk bílpróf fyrir liðlega fjórum vikum.