21 Febrúar 2007 12:00

Sautján ára stúlka var tekin fyrir hraðakstur í Ártúnsbrekku rétt eftir miðnætti í nótt. Bíll hennar mældist á 130 km hraða. Stúlkan, sem fékk bílpróf fyrir fjórum mánuðum, má búast við 60 þúsund króna sekt. Skömmu síðar var jafnaldri hennar stöðvaður á Hafnarfjarðarvegi en hann ók á 121 km hraða. Pilturinn, sem fékk bílpróf fyrir þremur mánuðum, má sömuleiðis búast við 60 þúsund króna sekt. Þá var karlmaður á fertugsaldri stöðvaður á Nýbýlavegi í gærkvöld. Bíll hans mældist á 101 km hraða en leyfður hámarkshraði er 50. Maðurinn á yfir höfði sér 75 þúsund króna sekt og sviptingu ökuleyfis í einn mánuð. Alls voru þrjátíu og tveir ökumenn teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring.

Fjórir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í gær og nótt. Fyrst var tæplega sextug kona tekin á Eiðisgranda í gærkvöld en þar hafði hún lent í umferðaróhappi. Önnur kona, nálægt fertugu, var stöðvuð á Kringlumýrarbraut í nótt og á sama stað var tekinn þrítugur karlmaður skömmu síðar. Hann var líka ölvaður undir stýri. Karlmaður á fimmtugsaldri var svo tekinn fyrir ölvunarakstur á Höfðabakka í nótt. Þá var karlmaður á svipuðum aldri stöðvaður við akstur í Hafnarfirði um kvöldmatarleytið. Sá var undir áhrifum lyfja.

Tuttugu og fimm umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og það verður að teljast í minna lagi. Langflest óhöppin voru minniháttar.