1 Mars 2007 12:00

Þrjátíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Þetta voru tuttugu og þrír karlmenn og sjö konur. Tæplega þriðjungur þeirra ók á yfir 100 km hraða. Konurnar eru flestar á fertugsaldri en tvær eru  sautján ára. Önnur þeirra var tekin í Ártúnsbrekku um níuleytið í gærkvöld en bíll hennar mældist á 136 km hraða. Stúlkan, sem fékk bílpróf síðasta haust, má búast við sviptingu ökuleyfis í einn mánuð og 75 þúsund króna sekt. Ofsaakstur stúlkna er fáséður en þó ekki einsdæmi. Í síðustu viku var einmitt 17 ára stúlka staðin að slíkum akstri á sama stað en hún ók á 130 km hraða.

Flestir karlanna sem voru teknir fyrir hraðakstur í gær eru á þrítugsaldri. Tveir þeirra voru stöðvaðir á Kringlumýrarbraut. Annar á 120 km hraða en hinn á 127. Sá fyrrnefndi var tekinn fyrir ámóta hraðakstur annars staðar á höfuðborgarsvæðinu í síðasta mánuði. Þá var tvítugur karlmaður tekinn á Sæbraut í gærkvöld en bíll hans mældist á 123 km hraða. Sami ökumaður var líka stöðvaður á Sæbraut fyrir rúmum hálfum mánuði en þá ók hann á 111.

Sautján ára piltur var stöðvaður í Arnarbakka um kvöldmatarleytið. Sá ók á 73 km hraða en leyfður hámarkshraði er 30. Piltur á svipuðu reki var tekinn á Fiskislóð. Sá var á 105 km hraða en leyfður hámarkshraði þar er 50. Sami piltur var stöðvaður fyrir hraðakstur í Garðabæ í desember. Þá mældist bíll hans á 64 km/klst í götu þar sem leyfður hámarkshraði er 30. Loks var þrítugur karlmaður stöðvaður á Suðurlandsvegi. Sá hefur alloft áður komið við sögu lögreglu vegna umferðarlagabrota en að þessu sinni ók hann á 124 km hraða.