23 Apríl 2007 12:00

Sautján ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Einn var stöðvaður á föstudagskvöld, átta á laugardag og jafnmargir á sunnudag. Tíu voru teknir í Reykjavík, fjórir í Hafnarfirði og þrír í Garðabæ. Þetta voru fimmtán karlmenn og tvær konur, 18 og 52 ára. Fjórir karlanna eru undir tvítugu en sá yngsti þeirra er aðeins 15 ára og hefur því aldrei öðlast ökuréttindi. Sá var á stolnum bíl með 16 ára félaga sínum.

Fimmtíu og átta umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en tvö þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Annað var minniháttar en í hinu urðu miklar skemmdir á tveimur bílum. Þar átti sök 33 ára karlmaður sem missti stjórn á bílnum sínum í miðborginni með þeim afleiðingum að hann ók á kyrrstæðan bíl og hafnaði síðan á grindverki. Báðir bílarnir voru óökufærir eftir óhappið en ökumaðurinn slapp án teljandi meiðsla.