12 Apríl 2007 12:00

Tuttugu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Það verður að teljast í minna lagi enda gekk umferðin almennt vel fyrir sig. Óhöppin voru nær öll minniháttar en í einu tilviki kvartaði ökumaður undan eymslum í hálsi. Sá ætlaði sjálfur að leita sér læknisaðstoðar.

Lítið bar á hraðakstri en tveir voru teknir fyrir ölvunarakstur. Um eittleytið í nótt var fertugur karlmaður stöðvaður fyrir þær sakir í austurborginni og ekki löngu síðar var 21 árs kona tekin í Kópavogi. Hún var sömuleiðis búin að neyta áfengis en bíll hennar mældist á 109 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 50. Þá stöðvuðu lögreglumenn för karlmanns á sextugsaldri í gær en sá ók bíl þrátt fyrir að vera nýbúinn að missa bílprófið. Fyrir brotið í gær á maðurinn yfir höfði sér 60 þúsund króna sekt.