29 Nóvember 2006 12:00
Tuttugu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Í einu tilviki var um að ræða minniháttar slys á fólki. Fáeinir voru stöðvaðir fyrir að spenna ekki bílbelti og að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Þrír ökumenn voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi.
Karlmaður á miðjum aldri var tekinn fyrir ölvunarakstur í nótt en hann hafði keyrt á umferðarskilti í úthverfi. Viðkomandi var færður í fangageymslu. Þá stöðvaði lögreglan för ökumanns í austurbænum en sá hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Nokkuð ber á því að ökumenn haldi áfram akstri þrátt fyrir sviptingu ökuleyfis. Við slíku broti eru allþung viðurlög og fangelsisvist ef þau eru ítrekuð.
Lítið bar á hraðakstri í gær en lögreglan fylgst grannt með gangi mála í þeim efnum. Við umferðareftirlit er m.a. notast við sérstakan myndavélabíl en hann hefur reynst mjög vel. Nú síðast var hann staðsettur við Stekkjarbakka og myndaði þá brot 41 ökumanns. Meðalhraði hinna brotlegu var tæplega 69 km/klst en leyfður hámarkshraði á þessu stað er 50.