7 Nóvember 2006 12:00

Tæplega þrítugur karlmaður var stöðvaður fyrir hraðakstur á Kringlumýrarbraut um miðjan dag í gær. Bíll hans mældist á 140 km hraða. Maðurinn bað lögreglumennina á vettvangi að líta framhjá þessu broti því hann væri á hraðferð og hefði ekki tíma til að ræða við þá! Viðurlög fyrir svona glannaskap eru 50 þúsund króna sekt og ökuleyfissvipting í einn mánuð.

Hvort umræddur ökumaður lætur sér þetta að kenningu verða skal ósagt látið. Hann hefur nú verið stöðvaður fimm sinnum fyrir hraðakstur frá því seinnihluta júlímánaðar en sektargreiðslan fyrir öll þessi brot nemur tæplega 200 þúsundum krónum. Í þremur tilvikum hefur maðurinn gerst sekur um ofsaakstur. Hann má með réttu kalla síbrotamann í umferðinni.

Sem fyrr hélt lögreglan í Reykjavík úti öflugu umferðareftirliti og stöðvaði ökumenn víðsvegar um borgina. Atvikið hér að ofan var eitt það alvarlegasta í gær en nefna má tvö önnur til viðbótar. Í báðum tilfellum komu konur við sögu. Önnur tæplega tvítug en hin liðlega hálffertug. Þær voru stöðvaðar í íbúðargötum en bílar þeirra mældust á rúmlega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða.

Að öðru leyti gekk umferðin bærilega fyrir sig. Tilkynnt var fimmtán umferðaróhöpp en það er minna en oftast áður. Í einu tilfelli var slys á fólki, minniháttar þó. Tveir ökumenn voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og þrír fyrir að nota ekki bílbelti.