7 Ágúst 2007 12:00

Tuttugu og einn ökumaður var tekinn fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um verslunarmannahelgina. Tveir voru stöðvaðir á föstudag, átta á laugardag, fimm á sunnudag og sex í gær. Sextán voru teknir í Reykjavík, þrír í Hafnarfirði og tveir í Kópavogi. Þetta voru átján karlar og þrjár konur.

Yngsti ökmaðurinn í þessum hópi er 17 ára piltur en sá hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Kauði var staðinn að hraðakstri í Reykjavík fyrir 10 dögum en þá mældist bíll hans á 74 km hraða í íbúðargötu. Þetta háttalag mun kosta sitt og væntanlega koma nokkuð við pyngjuna hjá hinum unga ökuþór en að auki þarf hann að svara til saka fyrir rangar sakargiftir. Um helgina reyndi hann nefnilega líka að ljúga til nafns og framvísaði skilríkjum annars manns þegar lögreglan stöðvaði hann fyrir ölvunarakstur.