21 Maí 2007 12:00

Tuttugu og tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þrír voru stöðvaðir á föstudag, sjö á laugardag og tólf á sunnudag. Fimmtán voru teknir í Reykjavík, fjórir í Kópavogi, tveir í Garðabæ og einn í Hafnarfirði en sá síðasttaldi var stöðvaður steinsnar frá svæðisstöðinni á Flatahrauni. Þetta voru nítján karlmenn og þrjár konur. Einn karlanna var á stolnum bíl, annar hafði aldrei öðlast ökuréttindi og tveir höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi.

Sjötíu og eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en tvö þeirra má rekja til ölvunaraksturs.