3 Janúar 2007 12:00

Tuttugu og tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Flest voru þau minniháttar en einn ökumaður, karlmaður á þrítugsaldri, var þó fluttur á slysadeild. Sá hafði ekið bíl sínum út af vegslóða nærri Vífilsfelli. Meiðsli mannsins voru samt ekki talin alvarleg.

Nokkrir voru teknir fyrir hraðakstur í gær. Í þeim hópi var tvítugur piltur en bíll hans mældist á 130 km hraða á Miklubraut í nótt. Sami piltur hefur nokkrum sinnum áður gerst sekur um umferðarlagabrot. Nokkru áður var piltur á svipuðu reki stöðvaður fyrir hraðakstur á Reykjanesbraut en í bíl hans fundust ætluð fíkniefni. Þrjú ungmenni á aldrinum 16-18 ára voru með honum í för en þau, líkt og ökumaðurinn, voru öll færð á lögreglustöð.

Um miðjan dag í gær stöðvaði lögreglan för rúmlega þrítugs ökumanns en sá hafði fengið bíl lánaðan til reynsluaksturs hjá bílasölu. Maðurinn hafði þegar verið sviptur ökuleyfi. Með honum í för var tæplega tvítug stúlka en í fórum hennar fundust ætluð fíkniefni. Manninum var sleppt eftir yfirheyrslu en stúlkan var færð í fangageymslu.