7 Desember 2006 12:00

Tuttugu og fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Flest voru þau minniháttar en í einu tilviki var flutningur á slysadeild. Um var að ræða 10 ára dreng sem var farþegi í bíl sem var ekið aftan á annan bíl í austurbænum síðdegis. Drengurinn kvartaði undan eymslum í andliti en við áreksturinn blés út öryggispúði sem er ætlað að forða fólki frá meiðslum í tilvikum sem þessum. Ekkert skal fullyrt um þetta tiltekna umferðaróhapp en full ástæða er til að minna á 71. grein umferðarlaga en þar segir m.a.; Barn sem er lægra en 150 sm á hæð má ekki vera farþegi í framsæti bifreiðar sem búin er uppblásanlegum öryggispúða fyrir framan sætið.

Nokkrir voru teknir fyrir hraðakstur í gær en sjö þeirra voru á yfir 100 km hraða.  Grófasta brotið var á Gullinbrú en þar stöðvaði lögreglan för 17 ára pilts sem fékk ökuleyfi fyrir tæpum tveimur mánuðum. Bíll piltsins mældist á 107 km/klst en leyfilegur hámarkshraði á þessum stað er 60. Fyrir vikið á pilturinn yfir höfði sér 60 þúsund króna sekt.

Þá tók lögreglan þrjá ökumenn sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi og einn til viðbótar reyndist aldrei hafa öðlast ökuréttindi. Sex voru stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og nokkrir voru teknir fyrir að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað eða höfðu ekki beltin spennt. Það skal líka sérstaklega tekið fram að í gær var enginn tekinn fyrir ölvunarakstur.