18 Desember 2007 12:00
Tuttugu og fjórir karlar og ein kona, 17 ára, brutu gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar um helgina. Tuttugu gerðust sekir um þetta athæfi á laugardag og fimm á sunnudag. Meirihluti karlanna er á þrítugsaldri, eða þrettán. Átta eru hinsvegar undir tvítugu. Þar af sex á aldrinum 14-16 ára en þeir voru færðir á lögreglustöð eftir uppákomu í Spönginni í Grafarvogi síðdegis á laugardag þar sem tveimur unglingahópum lenti saman.
Hinir brotlegu, sem flestir gerðu óskunda í miðborginni, höfðu í frammi ýmiskonar ólæti og óspektir en þeim var boðið að ljúka málinu með sektargreiðslu. Margir tóku þann kostinn en meðal þess sem fólkið gerði af sér var að kasta af sér þvagi á almannafæri, brjóta glös, slást og hindra störf lögreglu. Þá var einn handtekinn fyrir að neita að yfirgefa skemmtistað en staðnum hafði verið lokað og starfsmennirnir voru að tygja sig til heimferðar.