21 Október 2013 12:00

Tuttugu og fimm voru handteknir í aðgerðum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í Garðahrauni í Garðabæ í dag. Þar var samankominn hópur fólks til að mótmæla lagningu nýs Álftanesvegar, en hinir handteknu virtu að vettugi margítrekuð fyrirmæli lögreglu um að yfirgefa merkt vinnusvæði og hindruðu þannig framkvæmdir. Hinir handteknu, karlar og konur á ýmsum aldri, voru fluttir á lögreglustöð þar sem mál þeirra biðu frekari afgreiðslu. Að því loknu var fólkinu sleppt úr haldi lögreglu, en níu þeirra sneru aftur í Garðahraun og héldu uppteknum hætti. Voru hinir sömu þá handteknir öðru sinni, en aðgerðum lögreglu á vettvangi lauk á sjötta tímanum í dag. Enginn var í haldi lögreglu þegar aðgerðum hennar lauk í Garðahrauni.

Lögreglan var með nokkurn viðbúnað vegna aðgerðanna í dag, en hún lagði mikla áhersla á að tryggja öryggi á vettvangi og koma þannig í veg fyrir slys á fólki og gekk það eftir. Rétt er að undirstrika að fólk var margítrekað beðið um að yfirgefa vinnusvæðið, en þeir sem hunsuðu fyrirmæli lögreglu voru handteknir, eins og að framan greinir.