10 Janúar 2007 12:00

Tuttugu og sex umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Flest voru minniháttar en ljóst er að eignatjón varð nokkuð. Í gærmorgun fór bíll út af Þingvallavegi og valt en ökumann og farþega sakaði ekki. Rétt eftir hádegi var bíl ekið á ljósastaur á Kringlumýrarbraut en ökumaðurinn, kona á þrítugsaldri, var ekki talinn mikið slasaður. Síðdegis varð aftanákeyrsla á Laugavegi en annar ökumaðurinn, kona á sextugsaldri, kvartaði undan eymslum. Og undir kvöldmat var ekið á gangandi vegfaranda á Fjarðarhrauni. Ekki er vitað um meiðsli hans en þar var um að ræða karlmann á fimmtugsaldri.

Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur í nótt. Sá fyrri, tvítugur piltur, var stöðvaður á Fífuhvammsvegi en sá síðari, hálffertugur karlmaður, var tekinn í miðborginni. Þá stöðvaði lögreglan tvo aðra ökumenn sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Átján ára pilti, sem var stöðvaður í útjaðri Hafnarfjarðar snemma í morgun, var sömuleiðis gert að hætta akstri. Sá hefur aldrei öðlast ökuréttindi en pilturinn var á stolnum bíl. Sami aðili er jafnframt grunaður um bensínþjófnað.

Tólf ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæminu í gær.