9 Mars 2017 10:35

Undanfarnar vikur hefur ofbeldi og öryggi í miðborginni mikið verið í umræðunni. Hér verður farið yfir fjölda ofbeldismála sem tilkynnt hafa verið til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin sex ár. Umfjöllun um öryggiskennd í miðborginni má sjá hér.

Árið 2016 var tilkynnt um 283 líkamsárásir í miðborg Reykjavíkur. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki borist jafn fáar tilkynningar á einu ári frá því árið 2011 þegar tilkynnt var um 261 brot. Flestar eru tilkynningarnar vegna minniháttar líkamsárása (brot á 217. gr. alm. hegningarlaga). Flest þessara ofbeldisbrota koma upp í tengslum við skemmtanalíf í miðborginni um helgar. Um það bil tvö af hverjum þremur tilkynntum ofbeldisbrotum árið 2016 áttu sér stað frá miðnætti til klukkan 7 aðfaranótt laugardags og sunnudags og voru tæp 80 prósent þessara brota skráð inn á skemmtistöðum eða utandyra á þessu svæði.

Karlmenn eru um 90 prósent gerenda í ofbeldismálum í miðborginni og um 80 prósent brotaþola. Tæplega helmingur grunaðra voru á aldrinum 21 til 30 ára og um helmingur brotaþola var á sama aldri. Ekki er algengt að sömu aðilar séu grunaðir í mörgum ofbeldismálum á sama árinu. Um níu prósent grunaðra báru ábyrgð á tveimur eða fleiri ofbeldisbrotum árið 2016. Flestir áttu þátt í tveimur brotum, en tæplega þrjú prósent báru ábyrgð á þremur eða fjórum málum.

Þegar á heildina er litið hefur ofbeldisbrotum á höfuðborgarsvæðinu öllu fjölgað frá árinu 2011. Það ár bárust lögreglunni 679 tilkynningar um ofbeldisbrot, en árið 2015 voru tilkynningarnar aftur á móti orðnar 1.186 og 1.169 árið 2016. Þessi fjölgun skýrist af breyttu verklagi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í heimilisofbeldismálum sem tók gildi í janúar 2015. Allt til ársins 2015 var hlutfall heimilisofbeldismála í ofbeldisbrotum um það bil 25 prósent, en jókst nokkuð árin 2015 og 2016 eða í rúmlega 40 prósent. Eins urðu breytingar á staðsetningu ofbeldisbrota. Áður en ofangreindar verklagsbreytingar tóku gildi áttu um 40 prósent ofbeldisbrota sér stað í miðborg Reykjavíkur. Eftir breytingarnar lækkaði þetta hlutfall töluvert, eða í tæplega 30 prósent árið 2015 og um 25 prósent árið 2016.

Á næstu dögum og vikum mun Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fara af stað með ný verkefni með það að leiðarljósi að fækka ofbeldisbrotum og auka öryggi í miðborginni. Til að mynda er nú unnið að uppsetningu á um 30 nýjum eftirlitsmyndavélum í miðborginni auk þess sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun vera með aukið eftirlit á svæðinu um helgar. Nýlega skrifuðu Reykjavíkurborg, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og kráareigendur undir samkomulag um ofbeldislausa og örugga skemmtistaði. Markmiðið er að stuðla að betri samskiptum lögreglu við stjórnendur og starfsfólk skemmtistaða auk þess að minnka viðbragðstíma lögreglu á álagstímum skemmtistaða.