21 Desember 2006 12:00

Tuttugu og níu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Í einu tilviki var ökumaður fluttur á slysadeild og í tveimur öðrum ætluðu ökumenn sjálfir að leita sér læknisaðstoðar. Í fimm tilfellum var um afstungur að ræða.

Tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Fimm voru stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og þrír fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu. Tveir töluðu í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Þá stöðvaði lögreglan einn ökumann sem hafði þegar verið sviptur ökuleyfi.

Nokkrir voru stöðvaðir fyrir hraðakstur og þá ber enn á því að ökumenn eru ekki með ökuskírteini meðferðis. Sömuleiðis virðast allmargir trassa að endurnýja ökuskírteinið.