31 Maí 2007 12:00

Þriggja ára drengur slapp með skrekkinn þegar hann komst í fjölskyldubílinn og fór í óvænta ökuferð. Bíllinn stóð við heimili drengsins en þegar faðir hans leit í innkeyrsluna var fjölskyldubíllinn á bak og burt og stráksi sömuleiðis. Þegar betur var að gáð hafði ökutækið runnið stjórnlaust úr innkeyrslunni og yfir tvær götur og tvo grasbala og hafnað loks á verslunarhúsi nokkra tugi metra frá heimilinu. Þykir mikil mildi að ekki fór verr en töluverð umferð er um aðra götuna sem bíllinn rann yfir. Tekið skal fram að bíllinn, sem er beinskiptur, var ekki í gangi þegar drengurinn fór að fikta í honum. Talið er að stráksi hafi átt við handbremsuna með þeim afleiðingum sem hér var lýst. Drengurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar en ekki er talið að honum hafi orðið meint af. Bíllinn er hins vegar töluvert skemmdur.

Þetta er í annað sinn á fáeinum dögum þar sem smábarn kemur við sögu í umferðaróhappi á höfuðborgarsvæðinu. Í síðustu viku átti tæplega fjögurra ára drengur hlut að máli þegar ekið var á tvo kyrrstæða bíla. Sá drengur var skilinn eftir í bíl sem var í gangi á bifreiðastæði. Dæmin tvö sýna enn og aftur að það er aldrei of varlega farið. Börn eru forvitin og uppátækjasöm og þeim hættir til að fikta í því sem ekki má.