30 Ágúst 2007 12:00
Þrjátíu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær en eitt þeirra má rekja til aksturs undir áhrifum fíkniefna. Flest óhöppin voru minniháttar en í fáeinum tilvikum þurfti þó að flytja fólk á slysadeild.
Sem fyrr komu nokkrir réttindalausir ökumenn við sögu hjá lögreglu en einn þeirra, 15 ára piltur, lenti í umferðaróhappi í Vogahverfi. Strákurinn hafði tekið bíl foreldra sinna ófrjálsri hendi. Karl á þrítugsaldri, sem einnig var próflaus, var stöðvaður í Breiðholti en sá ökumaður var jafnframt ölvaður. Annar karl á svipuðum aldri var svo stöðvaður í Hafnarfirði en viðkomandi var nú tekinn fyrir að aka sviptur í þriðja sinn á stuttum tíma.