22 Maí 2019 14:50

Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir aprílmánuð 2019 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Skráð var 681 hegningarlagabrot í málaskrá lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í apríl sl. Heilt yfir voru skráð brot innan útreiknaðra marka fyrir síðustu sex og síðustu 12 mánuði á undan. Tilkynningum um innbrot fjölgaði á milli mánaða en þar af fjölgaði innbrotum í fyrirtæki og stofnanir hlutfallslega mest. Tilkynnt kynferðisbrot sem áttu sér stað í apríl fækkaði miðað við útreiknuð neðri mörk fyrir síðustu sex og síðustu 12 mánuði á undan. Tilkynningum um eignaspjöll fjölgaði á milli mánaða en alls voru þær 124 í apríl samanber 108 tilkynningar í mars. Tilkynningum um nytjastuld fjölgaði lítillega milli mánaða. Alls voru skráð 118 fíkniefnabrot og eitt stórfellt fíkniefnabrot á höfuðborgarsvæðinu. Skráðum fíkniefnabrotum fækkar nokkuð á milli mánaða en eru þó innan útreiknaðra marka fyrir síðustu sex og 12 mánuði á undan. Brot þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna fækkaði milli mánaða ásamt brotum þar sem ökumaður var grunaður um ölvun við akstur.