28 Mars 2007 12:00

Þrjátíu og eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Það verður að teljast þokkalega sloppið í ljósi ófærðarinnar sem var í gær. Flest óhöppin urðu fyrir hádegi, eða átján. Þar af var tilkynnt um fjórtán árekstra á milli átta og tíu.

Allnokkrir ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæminu en ekki var þó um neinn ofsaakstur að ræða. Umferðarhraðinn á stofnbrautum var skikkanlegur í gær en það var helst í nágrenni skóla sem ökumenn sýndu ekki nógu mikla tillitssemi. Í því sambandi má sérstaklega nefna Hamrahlíð en þar stöðvaði lögreglan nokkra ökumenn sem óku töluvert yfir leyfðum hámarkshraða. Enginn var samt sviptur ökuleyfi en þeir sem teknir voru eiga sekt yfir höfði sér.

Enn sem fyrr ber nokkuð á því að ökumenn hafa ökuskírteini ekki meðferðis og aðrir hirða ekki um að endurnýja það. Þá stöðvuðu lögreglumenn fjóra ökumenn sem voru á ótryggðum ökutækjum en skráningarnúmer þeirra voru fjarlægð.