16 Febrúar 2009 12:00

Þrjátíu og þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en tvö þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Nær öll óhöppin voru minniháttar en í nokkrum tilvikum þurfti þó að flytja fólk á slysadeild. Betur fór því en á horfðist enda lítið mál að laga beyglur og rispur hér og þar á ökutækjum. Öllu alvarlegra er með líkamstjón en til allrar hamingju hélt einhver verndarhendi yfir vegfarendum þessa helgina. Það átti t.d. við um fólkið sem var í bílnum sem valt og endaði utan vegar sunnan Hafnarfjarðar á laugardagskvöld. Þrennt var í bílnum, karl og tvær konur, og sluppu allir lítt lemstraðir frá óhappinu. Tekið skal fram að ekki leikur grunur á ölvunarakstri í því tilviki.