1 Október 2007 12:00

Þrjátíu og sjö einstaklingar brutu gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar um helgina. Tuttugu og einn gerðist sekur um þetta athæfi aðfaranótt laugardags og sextán aðfaranótt sunnudags. Þetta voru 35 karlar og 2 konur. Karlarnir eru langflestir á þrítugsaldri, eða 27, og fjórir eru undir tvítugu. Elsti karlinn er hins vegar hálfsextugur. Yngri konan er um tvítugt en sú eldri er tæplega þrítug.

Fólkið hafði í frammi ýmiskonar ólæti og óspektir en því var boðið að ljúka málinu með sektargreiðslu. Margir tóku þann kostinn en meðal þess sem fólkið gerði af sér var að kasta af sér þvagi á almannafæri og fleygja rusli. Þá var einn tekinn fyrir að veitast að lögreglumanni og tveir fyrir að klifra upp á lögreglubíl.