7 Ágúst 2007 12:00

Þrjátíu og sjö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um verslunarmannahelgina en tvö þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Í fæstum tilvikum urðu slys á fólki en athygli vekur að í fimmtán tilfellum var um afstungu að ræða og það verður að teljast hátt hlutfall.

Sem fyrr komu réttindalausir ökumenn nokkuð við sögu hjá lögreglu en um helgina voru fimmtán slíkir stöðvaðir víða í umdæminu. Níu þeirra höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi en hinir sex höfðu aldrei öðlast ökuréttindi.