23 Maí 2007 12:00

Þrjátíu og eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær en í einu þeirra átti í hlut tæplega fjögurra ára drengur. Sá átti að bíða í fjölskyldubílnum rétt á meðan mamma hans þurfti að bregða sér frá en eins og barna er gjarnan siður fór sá litli að fikta í búnaði bílsins. Þegar mamman sneri til baka hafði bíllinn hennar, sem hún skyldi eftir í gangi á ónefndu bifreiðastæði, færst úr stað og rekist utan í tvo aðra kyrrstæða bíla. Drenginn sakaði ekki og skemmdir á bílunum voru minniháttar. Sá litli verður bíða lengi enn eftir ökuleyfinu en atvikið minnir okkur á að aldrei er of varlega farið enda eru börn óútreiknanleg.