9 Júlí 2007 12:00

Fjörutíu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en þrjú þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Óhöppin voru flest minniháttar en í tveimur tilvikum var fólk flutt á slysadeild. Sem fyrr ber nokkuð á því að tjónvaldar stinga af en í fimm tilfellum var um afstungu að ræða.

Á þriðja tug ökumanna voru staðnir að hraðakstri en ekki var þó um teljandi ofsaakstur að ræða. Einn var þó sviptur ökuleyfi til bráðabirgða en þar var um að ræða rúmlega tvítuga stúlku en bíll hennar mældist á 112 km hraða á vegi þar sem leyfður hámarkshraði er 50.

Almennt séð gekk umferðin á höfuðborgarsvæðinu bærilega fyrir sig um helgina en að venju hélt lögreglan úti öflugu eftirliti. M.a. var lögð sérstök áhersla á að allur búnaður vegna eftirvagna væri í lagi. Svo var í flestum tilfellum en nokkrir ökumenn voru þó stöðvaðir og þeim gert að gera bragarbót. Í því fólst að laga ljósabúnað, spegla o.þ.h. en í einu tilviki var fellihýsi kyrrsett þar sem tengibúnaður var ófullnægjandi. Í öðru tilfelli var hjólhýsi kyrrsett en eigandi þess var á bíl sem hafði ekki dráttargetu til að hafa það í eftirdragi. Sama átti við um tvær hestakerrur sem lögreglan gerði athugasemdir við en eigendum þeirra var gert að skilja þær eftir.