12 Október 2006 12:00

Fjörutíu vallargestum á landsleik Íslendinga og Svía á Laugardalsvelli í gærkvöld hefur nú verið gert að greiða svokallað stöðubrotsgjald. Hinir sömu lögðu bílum sínum á gangstéttum við Reykjaveg. Það er óheimilt enda gildir um það bann við stöðvun eða lagningu ökutækja. Það gildir líka þótt bannið sé ekki gefið til kynna með umferðarmerki. Um þetta má lesa frekar í umferðarlögum, greinar 81, 83 og 106.

Það vekur óneitanlega athygli að fjöldi ónotaðra og lögmætra bílastæða stóðu þessum sömu vallargestum til boða í gærkvöld. Lögreglan taldi vel á annað hundrað ónotuð bílastæði beint fyrir framan Laugardalsvöllinn (austurstúka) á sama tíma og verið var að setja tilkynningar um álagningu stöðvunarbrotsgjalds á þessa sömu fjörutíu bíla.

Þrátt fyrir það sem hér er nefnt gekk umferð frá vellinum almennt vel fyrir sig í gærkvöld. Lögreglan í Reykjavík vill þó enn og aftur ítreka fyrir ökumönnum að virða svokallaðar neyðarbrautir. Þær verða alltaf að vera greiðfærar fyrir umferð lögreglu, sjúkraflutningamanna og slíkra aðila ef eitthvað ber út af. Almenningur á því aldrei að nota neyðarbrautir sem bílastæði.