10 Maí 2007 12:00

410 ökumenn eiga nú sekt yfir höfði sér fyrir að virða ekki 60 km leyfilegan hámarkshraða á Hringbraut í Reykjavík í gær og í dag eða á einum sólarhring. Brot þeirra náðust á löggæslumyndavél en hinir brotlegu óku að jafnaði á tæplega 75 km hraða. Sjötíu og fjórir ökumenn voru mældir á yfir 80 en sá sem hraðast ók var á 103 km hraða. Umrædd myndavél er staðsett á gatnamótum Hringbrautar og Njarðargötu. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Hringbraut í vestur.  

Þrjátíu og níu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur annars staðar í umdæminu. Nítján umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær en eitt þeirra má rekja til ölvunaraksturs.