12 Júlí 2021 12:56

Liðin helgi var stór í ferðalögum landsmanna,  tjaldsvæði á Suðurlandi þétt skipuð og veður gott.   Mikil hátíð var á Selfossi þar sem „Kótilettan“ sem fest hefur sig í sessi þar, var haldin.  Samhliða henni var opnað í nýjan miðbæ sem risinn er til móts við Ölfusárbrú.   Þá fór fram hjólreiðakeppnin „Kia Gullhringurinn“ þar sem hjólað var frá Selfossi og endað þar aftur eftir mis langar vegalengdir.  Mikill fjöldi fólks safnaðist saman á hátíðarsvæðinu, bæði í Sigtúnsgarði og um kvöldið við Hvítahúsið handan ár og fór þessi skemmtun hið besta fram og skipulag þessara viðburða almennt til fyrirmyndar.

Á flugvellinum við Hellu fór fram flughátíð „Allt sem flýgur“  og komu margir úr hópi flugáhugamanna þar saman, hinar ýmsu flugvélar og flygildi sýnd og mikil traffík, bæði á landi og í lofti.  Einnig þar fóru hátíðarhöldin vel fram og án afskipta lögreglu.

Fjórar líkamsárásir voru tilkynntar lögreglu um helgina,  allar s.k. minniháttar líkamsárásir og áverkar litilir.   Málin eru á frumstigi rannsóknar og formleg kæra hefur ekki verið lögð fram í nema hluta þeirra.

Eitt rúðubrot var tilkynnt um liðna helgi,  gerandi fannst á vettvangi,  kannaðist við að hafa slegið í gegn um rúðuna og baðst afsökunar á því.   Hafði skorist á hendi við athæfið en neitaði aðhlynningu eða aðstoð vegna þess.

Aðili sem dyraverðir höfðu yfirbugað á hátíðarsvæðinu við Hrísmýri aðfaranótt sunnudags vegna ölvunar og óspekta var handtekinn og færður í fangahús á  Selfossi.  Vegna ástands mannsins var fylgst sérstaklega með honum.   Fljótlega eftir komu í fangahús kastaði hann upp og fór í framhaldi af því í öndunarstopp.    Endurlífgunaraðgerðir voru þegar hafnar af lögreglumönnum og hjúkrunarfræðingi sem staddur var í fangahúsinu vegna annars verkefnis og komst maðurinn fljótlega til meðvitundar á ný.  Hann fluttur á sjúkrahús í Reykjavík en útskrifaður þaðan, heill heilsu, undir morgun.   Þar sem um alvarlegt atvik er að ræða er málið tilkynnt til Nefndar um eftirlit með störfum lögreglu og þess að auki óskað við ríkissaksóknara að hann, eða sá er hann felur málið,  taki rannsókn þess yfir.   Það er mat þess er þetta ritar að lögreglumenn og nærstaddur hjúkrunarfræðingur hafi, með árvekni sinni og skjótum og fumlausum viðbrögðum, bjargað lífi mannsins.

51 ökumaður var kærður fyrir að aka of hratt í liðinni viku.  18 ökumanna úr þessum hópi voru á ferð í nágrenni Víkur og Kirkjubæjarklausturs.  11 þeirra í Sveitarfélaginu  Hornafjörður og 22 í Rangárvalla og  Árnessýslu.

3 ökumenn voru í liðinni viku stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur og einn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna eða lyfja.

Um liðna helgi var fengin aðstoð fíkniefnaleitarhunda og þjálfara þeirra, annarsvegar frá lögreglunni í Vestmanneyjum og hinsvegar frá fangelsismálayfirvöldum og meðal annars farið á tjaldsvæði í umdæminu.   Þrjú s.k. neyslumál mál komu upp og eru til rannsóknar eftir.

Maður sem var að róa á kayak sínum á Fossá í Berufirði þann 7. júlí var fluttur, af félögum sínum til móts við sjúkrabifreið frá Höfn og síðan með þyrlu LHG þaðan á sjúkrahús í Reykjavík.   Maðurinn fór niður foss og mun hafa lent flatur og meiðst á baki en kom sér þó sjálfur til lands og frá ánni.

Barn var flutt með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík eftir miðjan dag í gær en það hafði fest sig í stiga í sundlauginni á Flúðum og misst þar meðvitund.   Nærstaddir náðu, með snarræði,  að losa barnið og með skyndihjálparkunnáttu sinni að koma því til meðvitundar á ný.   Það nú á sjúkrahúsi og upplýsingar um líðan þess liggja ekki fyrir.