20 Desember 2021 09:50
Tveir ökumenn sem lögregla hafði afskipti af í liðinni viku eru grunaðir um að hafa ekið ökutækjum sínum undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra, stöðvaður á Höfn þann 17. des, hljóp undan lögreglu en var handsamaður skömmu síðar og færður til blóðsýnatöku og skýrslugjafar. Hinn stöðvaður á Gaulverjabæjarvegi þann 15. des og afgreiddur skv. venju. Við athugun kom í ljós að hann hafði ekki sinnt kvaðningu um að mæta til afplánunar refsivistar í fangelsi og var hann því fluttur til dvalar á Hólmsheiði að vinnslu lokinni.
Þrír ökumenn voru kærðir fyrir brot á reglugerð um frágang og merkingu farms, einn með farm sem náði upp i 5,18 m. hæð eða nærri meter hærri en það sem leyft er. Annar með háan farm á vagni en ekkert sem varnaði fram eða hliðarskriði og einungis eitt strekkjaraband sem hélt við. Og sá þriðji flutti smágröfu á kerru án þess að hún væri fest með nokkrum hætti.
11 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í vikunni.
Fimm umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í vikunni. Eitt í Hvalnesskriðum þar sem bifreið valt en meiðsl sem af hlutust ekki teljandi. Hin fjögur í Árnessýslu, þar af eitt, árekstur þann 14. desember á gatnamótum Tryggvagötu og Engjavegar á Selfossi, þar sem minniháttar meiðsl hlutust á fólki. Þá valt bifreið út af Biskupstungnabraut við Svínavant þann 13. desember. Ökumaður og farþegi báðir í belti og töldu sig ómeidd.
Tvö vinnuslys voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku, annað þar sem maður sem var að klofa yfir beisli á kerru féll og rak höfuðið í malbikið. Fluttur, af lögreglu, til aðhlynningar á heilbrigðisstofnun. Hinn aðilinn mun hafa klemmt fingur við að setja grjót undir horn á gámi sem verið var að setja niður af gámaflutningabíl. Hann fluttur til aðhlynningar á sjúkrahús í Reykjavík.
Lögreglumenn á Höfn framkvæmdu húsleit í heimahúsi þar í bæ þann 18. desember s.l. Við leitina fundust um 100 gr. af kannabisefnum sem búið var að pakka í söluumbúðir. Málið enn til rannsóknar.
Þá framkvæmdu lögreglumenn á Hvolsvelli og Selfossi húsleit í íbúðarhúsi á sveitabæ í Rangárþingi. Hald lagt á 20 kannabisplöntur í sérútbúnu rými til ræktunar í kjallara hússins. Samtals rúmlega 20 kíló af óþurrkuðum plöntum. Húsráðandi kvaðst hafa leigt kjallarann ótilgreindum aðila og ekki vita um ræktunina að öðru leiti. Málið enn til rannsóknar.