1 Febrúar 2022 14:34
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 23. – 29. janúar, en alls var tilkynnt um 34 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 24. janúar. Kl. 1.32 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut, en við Listabraut missti ökumaður stjórn á henni svo bifreiðin fór utan vegar og hafnaði á ljósastaur. Ökumaður yfirgaf vettvang á fæti strax eftir slysið, en farþegi lá utan við bifreiðina þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn. Sá var fluttur á slysadeild. Ökumaðurinn leitaði svo sjálfur á slysadeild undir morgun. Og kl. 23.22 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut, en við gatnamót Miklubrautar var henni ekið aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi. Sú kastaðist áfram við áreksturinn og yfir gatnamótin. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild, en hann var jafnframt grunaður um ölvunarakstur.
Þriðjudaginn 25. janúar kl. 8.18 var vörubifreið ekið niður halla á óupplýstum vegslóða í myrkri við Víðnesveg á Álfsnesi og út af veginum svo bifreiðin valt. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 26. janúar. Kl. 7.34 var bifreið ekið austur Sundlaugaveg yfir hraðahindrun við Laugalæk, út af veginum og á stórt tré í trjárunna. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 10.12 var bifreið ekið austur Garðahraunsveg, inn í þrengingu sem er á miðjum veginum, en á sama tíma var léttu bifhjóli ekið vestur götuna og inn í þrenginguna svo árekstur varð með þeim. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild, en hann var með öryggishjálm. Og kl. 12.39 var reiðhjóli hjólað reiðhjólastíg við Strípisveg í Heiðmörk þegar hjólreiðamaðurinn hjólaði inn í beygju á stígnum og rann hjólið til í hálku svo hann féll með hjólinu á stíginn. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Hjólið var búið nagladekkjum.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 27. janúar. Kl. 8.15 var bifreið ekið austur Sæbraut, að Snorrabraut, og þar á steinsteyptan stólpa sem afmarkar vinnusvæði að og við gatnamótin Sæbraut/Snorrabraut. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.17 var bifreið ekið suður Háaleitisbraut, í vinstri beygju austur Bústaðaveg, þegar annarri bifreið var ekið norður Háaleitisbraut inn á gatnamót Bústaðavegar svo árekstur varð þeim. Ökumönnunum bar ekki saman um stöðu umferðarljósa. Annar þeirra var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 28. janúar kl. 11.11 var bifreið ekið Reynisvatnsveg við hringtorg á gatnamótum Biskupsgötu/Fellsvegar þegar ökumaður missti stjórn á henni með þeim afleiðingum að bifreiðin valt nokkrar veltur utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 29. janúar kl. 17.23 var bifreið ekið um bifreiðastæði á móts við Vínbúðina í Kauptúni og utan í gangandi vegfaranda sem leið átti yfir aksturleiðina inn á bifreiðastæðin. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild, en ökumaðurinn fór af vettvangi áður en lögreglan kom.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.