1 Desember 2007 12:00
Fjögur hundruð og fimmtíu ökumenn voru stöðvaðir við umferðareftirlit lögreglu á Sæbraut í gærkvöld en þessi aðgerð var liður í átaki gegn ölvunarakstri sem nú er hafið í umdæminu. Einn þessara ökumanna reyndist ölvaður, annar var réttindalaus og sá þriðji undir áhrifum lyfja. Sá síðastnefndi ók í gegnum lokanir en lét sér segjast eftir að lögreglan hafði veitt honum stutta eftirför. Ökumenn tóku þessum afskiptum almennt mjög vel en öflug sveit lögreglumanna var á vettvangi og því gekk eftirlitið bæði hratt og vel fyrir sig en mjög kalt og hvasst var í veðri.
Í átakinu verður skipulegu eftirliti haldið úti á ýmsum tímum sólarhrings og á mismunandi stöðum í umdæminu. Markmið þess er að vekja athygli á þeirri hættu sem stafar af ölvunarakstri og hvetja fólk til almennrar varkárni í umferðinni. Þá stefnir lögreglan að auknu sýnilegu eftirliti á og við stofnbrautir á höfuðborgarsvæðinu, inni í íbúðahverfum og við verslunarmiðstöðvar. Þannig muni lögreglan leggja sitt af mörkum til að íbúar og aðrir sem dvelja á höfuðborgarsvæðinu geti átt ánægjulegar stundir við jólaundirbúning á komandi vikum.