17 September 2007 12:00

Fjörutíu og sex einstaklingar brutu gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar um helgina. Sextán gerðust sekir um þetta athæfi aðfaranótt laugardags og þrjátíu aðfaranótt sunnudags. Þetta voru 43 karlar og 3 konur. Karlarnir eru langflestir á þrítugsaldri, eða 29, og sjö eru undir tvítugu. Elsti karlinn er hins vegar sextugur. Yngsta konan er 18 ára en sú elsta á fimmtugsaldri og ein er um þrítugt.

Fólkið hafði í frammi ýmiskonar ólæti og óspektir en því var boðið að ljúka málinu með sektargreiðslu. Margir tóku þann kostinn en meðal þess sem fólkið gerði af sér var að kasta af sér þvagi á almannafæri, fleygja rusli og brjóta flöskur. Þá var einn borgari tekinn fyrir að gyrða niður um sig buxurnar og bera á sér afturendann.

Þótt 46 aðilar hafi verið teknir fyrir ofangreindar sakir voru málin alls 47. Einn í hópnum, 18 ára piltur, var nefnilega tekinn tvívegis sömu nóttina fyrir að brjóta gegn lögreglusamþykkt borgarinnar. Laust eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags var pilturinn handtekinn fyrir að trufla störf lögreglunnar og hlýða ekki fyrirmælum. Honum var síðan sleppt en undir morgun sama dag var pilturinn svo mættur aftur í miðborgina og hélt þá uppteknum hætti. Hann var því handtekinn öðru sinni og látinn gista í fangageymslu.