30 Október 2007 12:00
Fjörutíu og sjö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær en það er óvenju mikið. Flest voru þau minniháttar en í fjórum tilfellum var um afstungu að ræða. Sem fyrr var talsvert um aftanákeyrslur en ökumönnum hættir til að gleyma þeirri góðu reglu að hafa hæfilegt bil á milli ökutækja. Þá vill lögreglan sömuleiðis minna á þá staðreynd að veturinn er á næsta leiti og því er rétt að huga að því að setja vetrardekkin undir. Að sama skapi er mikilvægt að skafa rúðurnar áður en haldið er af stað út í umferðina.
Tveir voru teknir fyrir ölvunarakstur í Reykjavík í gærkvöld. Fyrst var karl á fertugsaldri tekinn fyrir þær sakir á Suðurlandsbraut en bíll mannsins hafnaði þar á ljósastaur. Síðan var karl á þrítugsaldri stöðvaður á Sæbraut en sá var sömuleiðis ölvaður undir stýri. Þá var för karls á þrítugsaldri stöðvuð í miðborginni í hádeginu í gær en sá hefur aldrei öðlast ökuréttindi. Hann ók bíl sem reyndist ótryggður og voru skráningarnúmerin því fjarlægð. Þrír ökumenn voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og jafnmargir fyrir að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað.