6 Nóvember 2006 12:00
Um helgina voru fjörutíu og sjö umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík en nær öll voru þau minniháttar. Í fimm tilfellum var um afstungur að ræða. Tæplega þrjátíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur. Þeir sem hraðast óku voru stöðvaðir á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Þá var einn ökumaður stöðvaður í Hraunbæ en bíll hans mældist á tvöföldum leyfilegum hámarkshraða.
Ellefu voru teknir fyrir ölvunarakstur um helgina. Einn ók undir áhrifum lyfja og annar undir áhrifum fíkniefna. Þá stöðvaði lögreglan för þriggja ökumanna sem allir höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Átta ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og sex fyrir að tala í síma án þess að notast við handfrjálsan búnað. Fimm ökumenn voru jafnframt stöðvaðir fyrir að nota ekki bílbelti.