2 Ágúst 2006 12:00
Tuttugu og átta ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Einn þessara ökumanna er tvítug stúlka sem ók á rúmlega 100 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 50. Hún á nú yfir höfði sér 50 þúsund króna sekt og sviptingu ökuleyfis í einn mánuð.
Annars voru hinir brotlegu á ýmsum aldri. Sá elsti á áttræðisaldri en þeir yngstu nánast nýkomnir með bílpróf. Við eftirlit lögreglunnar í gær voru t.d. teknir tveir 17 ára piltar sem fóru alltof geyst miðað við leyfilegan hámarkshraða. Annar þeirra má búast við 25 þúsund króna sekt og hinn 30 þúsund króna sekt. Þess má geta að sá sem á von á hærri sektinni var líka tekinn af lögreglu fyrir álíka hraðakstur í síðasta mánuði. Trúlega tekur þetta verulega í pyngjuna hjá þessum unga ökumanni en vonandi hefur hann lært sína lexíu.
Þá voru þrír teknir fyrir ölvunarakstur en einn þeirra var nú að aka undir áhrifum áfengis öðru sinni. Því til viðbótar tók lögreglan einn ökumann sem ók undir áhrifum lyfja.