27 Ágúst 2007 12:00

Fimmtíu og þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en tvö þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Í öðru þeirra var um að ræða tvítugan pilt sem ók á vegstólpa í Garðabæ aðfaranótt sunnudags. Pilturinn nefbrotnaði og fékk skurð á höfuðið og þá er bíll hans, sem var reyndar lánsbíll, stórskemmdur. Auk ölvunar var pilturinn að senda sms-skilaboð þegar bíll hans hafnaði á fyrrnefndum stólpa og því ljóst að þessi ökumaður var ekki með athyglina í lagi.

Fjórir voru teknir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna um helgina og þá stöðvaði lögreglan sjö aðra ökumenn sem höfðu ýmist þegar verið sviptir ökuleyfi eða aldrei öðlast ökuréttindi.