18 Desember 2006 12:00
Fimmtíu og fimm umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík um helgina. Flest voru þau minniháttar en í fjórum tilvikum var slys á fólki. Nítján voru teknir fyrir ölvunarakstur, tveir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna og einn var undir áhrifum lyfja. Þess má geta að í desember hafa samtals áttatíu ökumenn verið teknir fyrir ölvunarakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík.
Þá stöðvaði lögreglan för tíu ökumanna sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi og nokkrir sem voru teknir til viðbótar höfðu aldrei öðlast ökuréttindi. Fjölmargir ökumenn sem lögreglan stöðvaði um helgina framvísuðu útrunnum ökuskírteinum. Ellefu voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og fáeinir fyrir að spenna ekki beltin.