16 Apríl 2024 14:48
Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 7. – 13. apríl, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 7. apríl. Kl. 14.45 féll ökumaður bifhjóls af því á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, við Tjarnarvelli, og rann hann áfram með bifhjólinu eftir götunni einhverja leið. Í aðdragandanum, við framúrakstur, læstist framhjólið með fyrrgreindum afleiðingum. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 18.40 var bifreið ekið á ljósastaur við Grandagarð í Reykjavík. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar- og lyfjaakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.37 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Hverfisgötu og Ingólfsstrætis í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið vestur Hverfisgötu, en hinni suður Ingólfsstræti og inn á gatnamótin svo árekstur varð með þeim. Þarna er biðskylda gagnvart umferð um Hverfisgötu. Farþegi úr annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 8. apríl. Kl. 14.10 varð árekstur bifreiðar og reiðhjóls í Hálsaseli í Reykjavík, við leikskólann Hálsaskóg. Í aðdragandanum var hjólreiðamaðurinn á austurleið á göngustíg/gagnstétt þegar hann hjólaði í hlið bifreiðarinnar. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 15.11 varð þriggja bíla aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi í Reykjavík, við hringtorg við gatnamót Lambhagavegar. Ökumaður fremstu bifreiðarinnar, sem var ekið til norðurs, hafði stöðvað vegna umferðar fram undan og sama gerði ökumaðurinn sem kom þar á eftir. Ökumaður öftustu bifreiðarinnar ók hins vegar á bílinn í miðjunni, sem við það kastaðist áfram á fremstu bifreiðina. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.24 var bifreið ekið austur Vesturlandsveg í Reykjavík, við Höfðabakka, og aftan á aðra bifreið þar fyrir framan. Í aðdragandanum hafði ökumaður fremri bifreiðarinnar dregið mikið úr hraðanum vegna umferðar fram undan. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 9. apríl kl. 18.08 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Garðabæ og aftan á aðra bifreið. Í aðdragandanum var fremri bifreiðinni ekið frá Arnarnesvegi og inn á Reykjanesbraut og þaðan yfir á vinstri vegarhelming til að taka fram úr hægfara bifreið. Ökumaðurinn sem kom þar á eftir, og var einnig á vinstri akrein, sagðist ekki hafa náð að hemla í tæka tíð til að forðast árekstur. Vitni sögðu hins vegar um ökumanninn á aftari bifreiðinni að hann hefði ekið mjög hratt og ógætilega. Farþegi úr annarri bifreiðinni var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 11. apríl kl 23.57 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Hverfisgötu í Reykjavík, við Barónsstíg, þegar hann hjólaði á girðingu við eitt húsanna. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 12. apríl kl. 0.34 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Suðurlandsbraut í Reykjavík, á göngustíg við Glæsibæ. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 13. apríl kl. 16.08 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á mótum Vífilsstaðavegar og Ásgarðs í Garðabæ, en við það fór bifreiðin yfir umferðareyju og á vegkant, þá aftur út á götuna þar sem hún stöðvaðist. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.