10 Október 2006 12:00

Tuttugu og fimm ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík á síðasta sólarhring. Einhverjir mega búast við sviptingu ökuleyfis eftir þessar aðgerðir sem var m.a. beint að íbúðargötum. Í einni þeirra, Arnarbakka í Breiðholti, voru tveir ökumenn teknir á meira en tvöföldum leyfilegum hámarkshraða sem er 30 km. Annar þessara ökumanna er fullorðin kona, 66 ára. Hún ók á 67 km hraða. Konan hefur einu sinni áður komist í kast við lögin fyrir að virða ekki umferðarreglur.

Þá tók lögreglan þrjá ökumenn sem þegar er búið að svipta ökuleyfi en hafa ekki látið sér segjast. Sautján ára piltur var sömuleiðis tekinn í umferðinni gær en hann á enn eftir að taka bílprófið. Tilkynnt var um nítján árekstra en í tveimur þeirra urðu slys á fólki. Í þremur árekstranna hurfu tjónvaldarnir af vettvangi.

Fjórir ökumenn voru teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi  og þrír fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu. Þá eiga nokkrir ökumenn sekt yfir höfði sér fyrir að spenna ekki beltin. Sama gildir um þá ökumenn sem tala í símann við akstur og notast ekki við handfrjálsan búnað. Sjö voru teknir við þá iðju í gær.