4 Júní 2007 12:00

Sextíu og sjö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en þrjú þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Óhöppin voru flest minniháttar en í fimm tilvikum var fólk flutt á slysadeild. Sem fyrr ber nokkuð á því að tjónvaldar stinga af en í sex tilfellum var um afstungu að ræða.

Bílabeltanotkun er enn ábótavant og rétt er að ítreka ábyrgð ökumanna í þeim efnum. Nokkrir voru teknir fyrir þessar sakir um helgina en í þeim hópi var hálffimmtug kona. Sú var reyndar með beltið spennt en 8 ára dóttir hennar hins vegar ekki. Fyrir vikið fær móðirin fjársekt enda er það á hennar ábyrgð að barnið sé í bílbelti.

Skráningarnúmer voru fjarlægð af fáeinum ökutækjum sem reyndust ótryggð og þá hafði lögreglan afskipti af tveimur ökumönnum sem voru á bílum búnum nagladekkjum.