12 Febrúar 2007 12:00

Sjötíu og tveir ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Mikill meirihluti þeirra, eða 55, ók á yfir 100 km hraða og sumir langt umfram það. Mestmegnis voru þetta ungir karlmenn en elsti ökufanturinn reyndist vera liðlega hálfáttræður.

Í hópnum voru líka ökumenn sem eru nýkomnir með ökuréttindi. Sautján ára stúlka, sem fékk bílpróf fyrir tíu dögum, var tekin á 111 km hraða á Vesturlandsvegi þar sem leyfður hámarkshraði er 80. Jafnaldri hennar var stöðvaður á Kringlumýrarbraut aðfaranótt sunnudags en bíll hans mældist á 138 km hraða. Þar er leyfður hámarkshraði einnig 80. Annar 17 ára piltur var tekinn á Reykjanesbraut við Straumsvík í gærmorgun. Hann ók á 118 km hraða. Báðir piltarnir fengu ökuréttindi fyrir fáeinum vikum.

Fjölmörg önnur dæmi má nefna úr umferðinni um helgina en grófasta umferðarlagabrotið var framið á Hafnarfjarðarvegi síðdegis í gær. Þar mældist bíll 24 ára karlmanns á 160 km hraða en sami ökumaður var tekinn fyrir ofsaakstur í öðru umdæmi í síðustu viku.