20 Nóvember 2006 12:00

Sjötíu og sex umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík um helgina, þar af voru þrjár bílveltur. Nokkuð var um slys á fólki en ekið var á þrjá gangandi vegfarendur og einn hjólreiðarmann svo dæmi séu tekin. Í átta tilfellum var um afstungur að ræða. Elllefu ökumenn voru stöðvaðir fyrir að aka gegn rauðu ljósi og fjórir töluðu í síma án þess að nota handfrjálsan búnað.

Tólf ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur og þá stöðvaði lögreglan þrjá ökumenn sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Tveir til viðbótar voru teknir í umferðinni um helgina en þeir höfðu aldrei öðlast ökuréttindi.

Tuttugu og þrír ökumenn voru stöðvaðir fyrir hraðakstur í umdæminu og var mikill meirihluti þeirra á yfir 100 km hraða. Bíll þess sem hraðast ók mældist á 141 km hraða á Gullinbrú. Ökumaðurinn, 19 ára piltur, var sviptur ökuréttindum á staðnum. Annar ökumaður, hálffertugur karlmaður, var stöðvaður á Vesturlandsvegi á 131 km hraða og þriðji ökumaðurinn, þrítugur karlmaður, var stöðvaður á Breiðholtsbraut á 128 km hraða.