3 September 2007 12:00

Áttatíu og eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en tvö þeirra má rekja til ölvunaraksturs. Flest óhöppin voru minniháttar en í nokkrum tilvikum þurfti þó að flytja fólk á slysadeild. Í þeim hópi voru þrír piltar á grunnskólaaldri en á þá var ekið í Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Grafarvogi. Strákarnir voru allir hjólandi en meiðsli þeirra voru sem betur fer minniháttar. Athygli vakti að hemlunarbúnaði á reiðhjólum tveggja piltanna var verulega ábótavant en annað þeirra var algjörlega bremsulaust. Þá var einn strákanna ekki með hjálm.