12 Október 2006 12:00

Áttatíu og þrír ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur í borginni í gær en lögreglan í Reykjavík var víða við hraðamælingar. Myndavélabíll lögreglunnar er óspart nýttur í þetta mikilvæga verkefni en um helmingur brotanna var myndaður úr bílnum. Myndavélabíllinn var m.a. við hraðamælingar í Breiðholti og Árbæ. Í síðarnefnda hverfinu var m.a. fylgst með umferð í Hraunbæ en þar er 30 km hámarkshraði. Alltof margir ökumenn tóku ekki tillit til þess.

Tilkynnt var um átján árekstra í gær og ljóst að eignatjón er nokkurt. Þrír tjónvaldar stungu af frá vettvangi. Sem betur fer var hins vegar lítið um slys á fólki en þó þurfti í einu tilviki að flytja fólk á slysadeild. Tveir voru teknir fyrir ölvunarakstur í gær og nótt. Fyrst kona á fimmtugsaldri en síðan karl á sextugsaldri. 

Umferðin í dag, fimmtudag, fer hins vegar ágætlega af stað. Lögreglan var t.d. við hraðamælingar á nokkrum stöðum í vesturbænum og þar óku langflestir  á leyfilegum hámarkshraða. Fylgst var með umferð við einn af grunnskólunum og þar virtu allir hámarkshraða. Samtals voru tveir teknir fyrir hraðakstur í vesturbænum í morgun. Þeir mega búast við sekt en verða ekki sviptir ökuleyfi.