6 Janúar 2020 18:05

Fyrir um níu árum, eða í desember 2010, ákvað Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að stíga það skref að vera á fésbókinni í þeim tilgangi að efla samskiptin við borgarana. Um það voru skiptar skoðanir og sitt sýndist hverjum um þetta framtak lögreglunnar á þeim tíma. Efasemdarmönnum fækkaði þó með tímanum og í dag þykir það sjálfsagt að lögreglan sé þátttakandi á þessum vettvangi. Fylgjendum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á fésbókinni hefur fjölgað mikið í gegnum tíðina og nú hefur náðst sá áfangi að 90 þúsund manns hafa líkað við síðu embættisins. Það er eitthvað sem við sáum ekki endilega fyrir okkur í upphafi, en þessi staðreynd merkir væntanlega að við séum að gera eitthvað rétt á þessum vettvangi og því ætlum við að sjálfsögðu að halda áfram.

Þess má geta að árið 2019 bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um 25 þúsund einkaskilaboð í gegnum fésbókarsíðu embættisins og segir það sína sögu. Þeim er að jafnaði svarað innan fjögurra klukkustunda af starfsmönnum embættisins og starfsmönnum fjarskiptamiðstöðvar, en þess utan berast árlega um 45 þúsund símtöl í gegnum þjónustuborð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og um 5 þúsund tölvupóstar á netfangið abending@lrh.is

Sé óskað eftir skjótri aðstoð lögreglu skal hins vegar ávallt hringja í síma 112.