19 Mars 2007 12:00

Nítíu og fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Í níu tilfellum var um afstungu að ræða. Langflest óhöppin voru minniháttar en í fjórum tilvikum var fólk flutt á slysadeild.

Tuttugu og tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á sama tímabili. Tólf voru stöðvaðir í Reykjavík, sjö í Kópavogi,  tveir í Hafnarfirði og einn í Garðabæ. Þetta voru sautján karlmenn og fimm konur. Þá var átján ára piltur tekinn fyrir að aka undir áhrifum lyfja.

Þrjátíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur um helgina en helmingur þeirra ók á yfir 100 km hraða. Ökumennirnir voru stöðvaðir víðsvegar um umdæmið. M.a. á Reykjanesbraut, Eiðisgranda, Fífuhvammsvegi, Gullinbrú, Hafnarfjarðarvegi, Bæjarbraut, Kringlumýrarbraut, Nýbýlavegi, Vesturlandsvegi og Sæbraut.