31 Janúar 2007 12:00

Tuttugu og tveir ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring en flestir þeirra óku á yfir 100 km hraða. Karlmaður á þrítugsaldri var stöðvaður á Reykjanesbraut í Garðabæ í gærkvöld en bíll hans mældist á 134 km hraða. Á þessum kafla vegarins er 50 km hámarkshraði en þar standa nú yfir framkvæmdir. Lögreglan fordæmir slíkan háskaakstur. Um svipað leyti var 17 ára stúlka stöðvuð á Vesturlandsvegi en hún ók á 125 km hraða. Stúlkan gaf þá skýringu að hún hefði verið að hlusta á lýsingu í útvarpinu frá leik Íslendinga og Dana og því gleymt að fylgjast með hraðamælinum. Skömmu síðar var liðlega tvítugur piltur tekinn á sama vegi en bíll hans mældist á 129 km hraða. Ekki er vitað hvaða afsökun hann bar við þessum glæfraakstri.

Um miðjan dag tóku lögreglumenn eftir bíl sem tók framúr strætisvagni á gangbraut í Breiðholti. Bíllinn var stöðvaður en ökumaður hans reyndist vera 18 ára piltur sem hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Aðspurður um aksturslagið sagðist pilturinn hafa verið að fíflast. Þá var akstur fimmtugs karlmanns stöðvaður í Holtagörðum í gærkvöld en sá var þegar sviptur ökuleyfi.

Tuttugu og fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á síðasta sólarhring. Ekið var á karlmann á sjötugsaldri í austurborginni í gærmorgun en ökumaðurinn hvarf af vettvangi. Meiðslin voru talin minniháttar. Eftir hádegi varð tveggja bíla árekstur á Öldugranda en annar ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Síðdegis var karlmaður á þrítugsaldri handtekinn í Breiðholti en hann er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og lyfja.