29 Ágúst 2019 14:40

Ýmsar leiðir eru færar þegar fólk vill afla upplýsinga eða koma þeim á framfæri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Margir vilja spara sér ferðina á næstu lögreglustöð enda oft hægt að leysa málin símleiðis, með tölvupósti eða einkaskilaboðum á fésbókarsíðu embættisins. Misjafnt er hvað hentar hverjum best, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu reynir ávallt sitt besta til að bregðast við og svara erindum eins fljótt og verða má. Stundum dregst að svara, t.d. ef fyrirspurn krefst tímafrekrar úrvinnslu, og það leggst misjafnlega vel í fólk. Umfang fyrirspurna til embættisins á undanförnum árum hefur aukist frekar en hitt og skipta þær þúsundum á hverju ári. Ein leið til að afla upplýsinga eða koma þeim á framfæri er að senda tölvupóst á abending@lrh.is en frá vordögum ársins 2015 og til dagsins í dag hafa borist vel yfir 10 þúsund tölvupóstar á þetta eina netfang. Að móttaka og svara slíkum fjölda pósta krefst mikillar vinnu, sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur ekki eftir sér enda er hún fyrst og fremst þjónustustofnun. Erindin sem berast eru af öllum toga, en jafnan berst töluvert af ábendingum þegar áberandi mál eru til rannsóknar. Um það eru mörg dæmi og þegar hvarf ungrar stúlku kom til rannsóknar í ársbyrjun 2017 barst slíkur fjöldi ábendinga að embættið hafði aldrei áður séð annað eins.  

Oft er sagt að betra sé að hringja í lögregluna einu sinni of oft heldur en einu sinni of sjaldan, en það má líka heimfæra á aðrar samskiptaleiðir sem fólk kann að viðhafa við embættið og er það undirstrikað hér.